Þegar búið er að taka málsýnið er hafist handa við að afrita það. Byrjað er að skrá aldur barnsins og kyn. Á netinu er hægt að finna nokkur forrit sem reikna út aldur t.d. http://www.calculator.net/age-calculator.html. Síðan er skráður dagurinn sem málsýnið var tekið. Málsýni sem var tekið 21.febrúar 2018 er skráð á eftirfarandi hátt 21.2.18.

Dæmi:
Kyn: Stúlka
Aldur: 3;8:0
Dagsetning: 21.2.2018

Afritun málsýna felst í því að skrá tal bæði barnsins (B) og viðmælanda (V) nákvæmlega niður frá orði til orðs. Stundum þarf að hlusta aftur og aftur á málsýnið til að átta sig á hvað barnið er að segja. Samt sem áður er gott að hafa til viðmiðunar að hlusta ekki oftar en fimm sinnum á sama orðið. Ólíklegt er að hægt sé að átta sig á hvað barnið segir ef afritarinn heyrir það ekki eftir svo margar endurtekningar. Afritunin þarf að vera nákvæm því málsýnið verður nú að ritaðri heimild um samskipti viðmælendanna. Málsýnið á að skrá orðrétt með „málfræðivillum“ en rangur framburður er ekki skráður sérstaklega.

Skráning segða
Málsýni er skráð niður eftir segðum. Það er mikilvægt að huga að því hvernig segðir eru skráðar. Almenna reglan er sú að ein setning er ein segð. Skipt er einnig í segðir ef breytt er um tónhæð, hikað í meira en 2 sekúndur og / eða draga andann sem gefur til kynna nýja hugsun hjá þeim sem tjáir sig (sjá nánar í handbók).  Upphaf segða viðmælanda eru merktar með stóru V og upphaf segða barns eru merktar með stóru B ( sjá nánari leiðbeiningar um skiptingu í segðir í handbók).

Dæmi:
V Með hverjum ertu að fara í sund?
B Með mömmu.

Hafið eftirfarandi í huga við skráningu í segðir
Hljómfall. Hlustið á hljómfall, ítónun (hækkandi og lækkandi) og látið það hjálpa til við að ákvarða upphaf og endi segðar.
Hlé. Algengt er að málnotendur geri hlé á tali sínu. Ef hlé er í 2 sekúndur eða lengra þá er skipt í nýja segð.

Lengra hlé. Það getur verið eðlilegt að lengra hlé komi fyrir sem eðlilegur hluti af ítónun en er ekki hluti af segð. Slíkt er samt ekki skráð sérstaklega.

Framhalds-setningar (e. run-on senences) er það kallað þegar margar aðalsetningar eru tengdar saman með aðaltengingum til dæmis eins og: og, en, eða, heldur, enda. Þær eru skráðar á eftirfarandi hátt
Dæmi:
Við fórum í bíó og ég sá skemmtilega mynd og það var rosalega gaman.
Skráið á eftirfarandi hátt:
B Við fórum í bíó og ég sá skemmtilega mynd.
B [og] það var rosalega gaman.

Útúrdúrar (e. maze) geta verið margs konar t.d. að byrjað sé á setningu en hún ekki kláruð, hætt við setningu og byrjað aftur, leiðrétting í miðri setningu, endurtekningar, hikorð og uppfyllingar. Útúrdúrar eru skráðir sérstaklega og merktir með hornklofa [ ] svo að eftir stendur aðeins sá hluti segðar sem er skýrastur svo sem best samhengi fáist í segðina.
Dæmi:
B [ fórum við til, til, þú veist,] við ætluðum að fara í [æ, ge, nei sk, skí], skíðabrekkuna, en [við gátum] það snjóaði svo mikið.

Útúrdúrar eru ekki taldir með sem orð í segðum þannig að dæmið hér að ofan er ein segð með 11 orðum.

Óskiljanleg orð eða setningar. Óskiljanleg orð eða setningahlutar eru skráðar með XXX sama hversu mörg atkvæði virðast vera í óskiljanlega hlutanum. Þau eru EKKI talin með sem orð eða segðir. Ath á eingöngu við segðir barns ekki viðmælanda.

Málfræðivillur. Málfræðivillur eiga að vera merktar með gæsalöppum. Sé um málfræðivillu í sambeygingu orða þá skal telja það sem eina villu.
Dæmi
Hann er „góð“
Hann er „góðum manni“

Erlend orð
Erlend orð eiga að vera skráð með stórum stöfum
Dæmi
Superman, Batman, Lego, Barbie, Playmo, Cars, Pony. Einnig skal rita StarWars, HelloKitty og skyld orð í einu orði þar sem börnin kunna einungis samhengið, þ.e. þekkja þetta bara sem eitt orð.

Því er mikilvægt að passa upp á stafsetningarreglur, t.d. um samsett orð þar sem villur í afritun geta haft áhrif á talningu orða og fjölda mismunandi orða.
Dæmi
Út af því eru þrjú orð
Af hverju eru tvö orð
Alls konar eru tvö orð
Hvað fannstu skal ritað Hvað fannst þú?
Eins skal rita soldið og dáldið sem svolítið og dálítið

Ef framburður er ekki réttur þá skal samt stafsetja orðið rétt
Dæmi
Ég heiti Þiggi skal ritað Ég heiti Siggi
Þetta er törvamaður skal ritað þetta er töframaður

Einnig þarf að gæta samræmis í orðum sem geta haft mismunandi ritunarhátt
Dæmi
Okei, skrýtið, möffins, pítsa o.f.

Skráning
B Segðir barns.
V Segðir viðmælanda.
[ ] Útúrdúrar (e. mazes).
XXX Óskiljanleg segð.
„ “ Málfræðivillur
Þessi viðmið við afritun eru byggð á afritunarreglum SALT (SALT Software, 2010b) og CHILDES (MacWhinney, 2000). Dæmin eru úr Gagnabanka Jóhönnu Thelmu Einarsdóttur um málsyni (GJEUM) (Jóhanna Thelma Einarsdóttir, 2016).

Dæmi um afritað málsýni
Hlustið á eftirfarandi hljóðskrá með textaskjalið að augum til að æfa afritun
Hljóðskrá –  Textaskjal