Gott er að hafa í huga að málsýnið á að endurspegla raunverulega og dæmigerða getu barnsins til að tjá sig. Nauðsynlegt er að barninu líði vel og að umhverfið sé notalegt. Sýna þarf barninu áhuga og bera virðingu fyrir viðleitni þess að tjá sig. Reynið að skapa létt, afslappað andrúmsloft og náið góðu augnsambandi við barnið. Brosið og takið eftir barninu. Sýnið því óskipta athygli. Hitið upp með almennu spjalli áður en hafist er handa við að taka upp. Hafðu eftirfarandi atriði í huga við að laða fram sjálfsprottið tal hjá barni á leikskólaaldri.
Fylgið áhuga barnsins
Fylgið áhuga við val á umræðuefni og leikföngum. Ef barnið hefur mikinn áhuga á risaeðlum, bílum, kubbum, dúkkum eða ákveðnum bókum notið þá þessi viðfangsefni þegar þið eruð að laða fram máltjáningu barnsins.
Núvitund.
Best er að halda sig við núið og ræðið um leikföng eða dót sem barnið hefur fyrir framan sig. Leikið við barnið og talið um það sem þið eruð að gera. Ræðið um það sem barnið er að gera. Best er að halda sig við líðandi stund og ræða um það sem er að gerast hér og nú. Ekki er gott að reyna að fá barnið til að segja sögur frá liðnum atburðum nema að það hafi áhuga á því.
Þagnir
Þagnir eru eðlilegur þáttur í samskiptum. Þær eru ekkert til að óttast. Oft dugar að bíða og vera þolinmóður. Gott ráð til að hvetja barnið áfram til að tjá sig er að endurtaka setninguna sem barnið var að ljúka við. Það sýnir líka virka hlustun. Stundum getur verið gott að stinga upp á nýju viðfangsefni eða koma með ábendingar. Almennt séð er ekki gott að skipta oft um umræðuefni.
Skipta um umræðuefni
Forðist að skipta oft um umræðuefni. Það er ekki viðmælandans að ákveða um hvað umræðurnar eiga að vera. Samtalið verður mun áhugaverðara og skemmtilegra ef barnið leiðir það og fær að tala um það sem því er hugleikið.
Spurningar
Spurningar eru vandmeðfarnar. Mikilvægt er að forðast að yfirheyra barnið, sleppa spurningum sem leiða að ákveðnum svörum og spyrja ekki margra spurninga þar sem barnið veit að viðmælandinn veit svarið. Opnar spurningar auka líkur á því að barnið tjái sig í setningahlutum eða heilum setningum frekar en þegar barnið er spurt með lokuðum spurningum. Dæmi um opna spurningu er hvað gerðist… ,