Þegar búið er að taka málsýnið er hafist handa við að afrita það. Byrjað er að skrá aldur barnsins og kyn. Á netinu er hægt að finna nokkur forrit sem reikna út aldur t.d. http://www.calculator.net/age-calculator.html. Síðan er skráður dagurinn sem málsýnið var tekið. Málsýni sem var tekið 21.febrúar 2024 er skráð á eftirfarandi hátt 21.2.24.

Dæmi:
Kyn: Stúlka
Aldur: 3;8:0
Dagsetning: 21.2.2024

Afritun málsýna felst í því að skrá tal, bæði barns (B) og viðmælanda (V), nákvæmlega niður frá orði til orðs. Upphaf segða viðmælanda eru merktar með stóru V og upphaf segða barns eru merktar með stóru B (sjá nánari leiðbeiningar um skiptingu í segðir í handbók). Stundum þarf að hlusta aftur og aftur á málsýnið til að átta sig á því hvað barnið er að segja. Engu að síður er gott að hafa það til viðmiðunar að hlusta ekki oftar en fimm sinnum á sama orðið. Ef afritarinn heyrir ekki hvað barnið segir á upptökunni eftir svo margar endurtekningar, er ólíklegt að hægt sé að greina hvað barnið segir. Þar sem málsýnið verður nú að ritaðri heimild um samskipti viðmælendanna, verður afritunin að vera nákvæm. Málsýnið á að skrá orðrétt með „málfræðivillum“ en rangur framburður er ekki skráður sérstaklega. Hver segð byrjar á stórum staf og endar ávallt á punkti, nema ef um spurningu er að ræða, þá skal nota spurningarmerki.

Skráning segða
Málsýni er skráð niður eftir segðum en segð getur verið heil málsgrein, setning eða jafnvel eitt orð (t.d. sem svar við spurningu). Það er mikilvægt að huga að því hvernig segðir eru skráðar. Almenna reglan er sú að ein aðalsetning eða merkingarbært setningarbrot sem einhver segir í einu lagi er ein segð. Merking setningarbrots ræðst út frá samhengi en ekki er hægt að skipta segð frekar niður án þess að grundvallarmerking hennar breytist.

Aðalsetningar og aukasetningar
Meginreglan er að við hverja aðaltengingu hefst ný segð. Algengustu aðaltengingar eru: og, en, eða, heldur, enda.

Dæmi:
V Hvað gerðuð þið í gær?
B Ég fór í sund til þess að hitta Hjalta.
B En Sól fór í bíó.
V Með hverjum fór Sól í bíó?
B Með Hönnu.
B Og það var rosalega gaman.

Aukasetningar fylgja oft aðalsetningum. Aukasetningar tengjast við aðalsetningar með aukatengingum. Helstu aukatengingar í íslensku eru: sem, að, ef, þegar, hvort, svo, þá, af því að. Aukasetningar geta ekki staðið einar og sér þar sem þær eru háðar því samhengi sem aðalsetningin setur þeim því eru þær ekki skráðar sem sér segðir.

Dæmi:
V Hvað gerðuð þið þegar þið komuð inn úr útiveru?
B Strax þegar við fórum inn þá fórum við á klósettið.
B Og settumst í samveru.

Tónhæð, hik og ítónun.
Einnig er skipt í segðir ef tónhæð breytist, hikað er í meira en 2 sekúndur og/eða þegar barn dregur inn andann sem gefur til kynna nýja hugsun (sjá nánar í handbók).

Hljómfall: Mikilvægt er að hlusta á hljómfall og ítónun (hækkandi og lækkandi). Það hjálpar til við að ákvarða upphaf og endi segðar.

Hlé: Algengt er að málnotendur geri hlé á tali sínu. Ef hlé varir í 2 sekúndur eða lengur, er skipt í nýja segð.

Lengra hlé: Það getur verið eðlilegt að lengra hlé komi fyrir sem eðlilegur hluti af ítónun sem þá telst ekki hluti af segð. Slíkt er þó ekki skráð sérstaklega.

Já og nei svör.
Ef viðmælandi spyr spurningu sem krefst já eða nei svars og barnið fylgir svarinu með heilli setningu, þá skal skrá já/nei sem sér segð.

Dæmi:
V Er hún vinkona þín?
B Já.
B Sumir segja að hún sé leiðinleg við mann.

Beinar tilvitnanir
Beinar tilvitnanir sem eru hluti af segð eru ekki hafðar sem sér segð. Hins vegar ef tilvitnunin heldur áfram í nýrri setningu þá er hún skráð sem sér segð.

Dæmi:
V Hvað fannst ömmu þinni um myndina þína?
B Hún sagði þetta er nú fín mynd hjá þér elskan mín.
B Viltu hengja hana upp á ísskáp?

Upptalning
Ef barnið telur upp marga hluti með aðaltengingu þá skal skrá það sem eina segð fram yfir þrjár aðaltengingar. Það sem er talið upp eftir það skal skrá sem sér segðir.

Dæmi:
V Já. Hvað perlar þú?
B [Mm] Stjörnur og hringi og kassa og svona blóm.
B Og hjarta.
B Og broskarl.

Útúrdúrar (e. maze)
Útúrdúrar geta verið margs konar, t.d. þegar byrjað er á setningu en hún er ekki kláruð, hætt er við setningu og byrjað er aftur, leiðrétting verður í miðri setningu, endurtekningar, hikorð og uppfyllingar. Útúrdúrar eru skráðir sérstaklega og merktir með hornklofa [ ], svo að eftir stendur aðeins sá hluti segðar sem er skýrastur, svo að samhengi verði sem best. Upphrópanir eru almennt líka ritaðar innan hornklofa, t.d. [úff, æ, vá, ojj] nema þær gegni merkingarlegum tilgangi.

Dæmi:
B [fórum við til, til, þú veist,] við ætluðum að fara í [æ, ge, nei sk, skí],
Skíðabrekkuna.
B En [við gátum] það snjóaði svo mikið.
Útúrdúrar eru ekki taldir með sem orð í segðum, þannig að dæmið hér að ofan er ein segð með 11 orðum.

Óskiljanleg orð eða setningar
Óskiljanleg orð eða setningarhlutar eru skráðar með XXX sama hversu mörg atkvæði virðast vera í óskiljanlega hlutanum. Þau eru ekki talin með sem orð né segðir. Athuga skal að þetta á eingöngu við um segðir barns en ekki viðmælanda.

Málfræðivillur
Málfræðivillur eru merktar með íslenskum gæsalöppum. Ef um er að ræða málfræðivillu í sambeygingu orða, skal telja hana sem eina villu. Ef málfræðivillan felst í því að eitthvert kerfisorð vantar, skal rita gæsalappir þar sem orðið ætti að standa.

Dæmi
B Hann er „góð“.
B Hann er „góðum manni“.
B Við áttum „“ fara.

Erlend orð
Erlend orð (t.d. sérnöfn og heiti fyrirbæra) eru skráð með stórum upphafsstöfum sem og erlendar upphrópanir.

Dæmi
Spiderman, Frozen, Baby, Minions, Lego, Barbie, Unicorn, Rainbow og Stitch.

Einnig skal rita BabyYoda, HelloKitty, OhMyGod og skyld orð í einu orði þar sem börnin kunna einungis samhengið, þ.e. þekkja þetta bara sem eitt orð.

Stafsetningarreglur
Mjög mikilvægt er að passa upp á stafsetningarreglur,t.d. þegar um samsett orð er að ræða, þar sem villur í afritun geta haft áhrif á talningu orða og fjölda mismunandi orða.

Dæmi:
Út af því eru þrjú orð.
Af hverju eru tvö orð.
Alls konar eru tvö orð.

Hvað fannstu skal ritað Hvað fannst þú?
Eins skal rita soldið og dáldið sem svolítið og dálítið

Ef framburður er ekki réttur, skal samt stafsetja orðið rétt.

Dæmi
Ég heiti Þiggi skal ritað: Ég heiti Siggi.
Þetta er törvamaður skal ritað: Þetta er töframaður.

Einnig þarf að gæta samræmis í orðum sem geta haft mismunandi ritunarhátt.

Dæmi
Okei, skrýtið, möffins, pítsa o.fl.

Skráning:
B Segðir barns.
V Segðir viðmælanda.
[ ] Útúrdúrar (e. mazes).
XXX Óskiljanleg segð.
„ “ Málfræðivillur
Byrja alltaf á stórum staf og enda á punkti eða spurningamerki eftir því hvað við á.
Þessi viðmið við afritun eru byggð á afritunarreglum SALT (SALT Software, 2016) og CHILDES (MacWhinney, 2000). Dæmin eru m.a. úr Gagnabanka Jóhönnu Thelmu Einars¬dóttur um málsyni (GJEUM) (Jóhanna Thelma Einarsdóttir, 2016).

Dæmi um afritað málsýni
Hlustið á eftirfarandi hljóðskrá með textaskjalið að augum til að æfa afritun
Hljóðskrá –  Textaskjal